138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil leggja áherslu á sömu mál og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á, að því verði svarað mjög fljótlega eða helst núna strax hvort þær nefndir sem rætt var um áðan verði kallaðar saman til að fara yfir þetta mál, því að mínu viti er ekki nóg að fjárlaganefnd fari yfir málið heldur þurfa efnahags- og skattanefnd og jafnvel utanríkismálanefnd að hittast og fara betur yfir þær upplýsingar sem fram hafa komið, ekki síst þær sem snúa að stjórnarskránni og það sem kom fram í grein Daniels Gros sem hér hefur verið til umræðu.

Ég vil því hvetja forseta til að tala við formenn þeirra nefnda sem hér eru nefndar og að þeir kalli nefndirnar saman og hlé verði gert á umræðunni á meðan, við getum farið í önnur mál, það er sjálfsagt. Óska ég eftir því að forseti láti vita fljótlega hvort þetta verður gert.