138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrr í dag var þess farið á leit hvað eftir annað að þetta mál yrði tekið inn í fjárlaganefnd að nýju vegna þeirra upplýsinga sem fram hafa komið frá því að nefndarálit meiri hluta og minni hluta í fjárlaganefnd komu fram. Ekki hefur verið orðið við þeirri ósk. Við bentum á það í umræðu hér um það leyti sem málið var að fara af stað í þinginu að ekki hefði farið fram efnisleg umræða um málið í lokin í fjárlaganefnd og nú hefur hv. þm. Birkir Jón Jónsson bent á það í sinni yfirgripsmiklu ræðu að í raun og veru hafi svipuð vinnubrögð verið höfð uppi í efnahags- og skattanefnd þar sem komið var í veg fyrir það að hægt væri að kalla fyrir nefndina ýmsa þá sem hafa kynnt sér þessi mál hvað best, m.a. eins og Indefence-hópinn. Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Fór virkilega ekki fram nein efnisleg umræða innan nefndarinnar um þessi mál? Efnahags- og skattanefnd hafði hér mjög mikilvægu hlutverki að gegna, var umsagnaraðili fyrir fjárlaganefnd, og þess vegna er það áhyggjuefni ef svo hefur verið að það sem fjárlaganefndin byggði á hefur farið fram með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsti áðan.