138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:47]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Forseti. Þetta er hárrétt skilið hjá hv. þingmanni og mjög alvarlegt. Þingmenn lögðu á sig mikla vinnu þessa helgi til að klára nefndarálitið og þrátt fyrir að hafa ekki fengið þá nauðsynlegu gesti sem við óskuðum eftir, því var neitað af hálfu meiri hlutans og málið var rifið út úr nefnd, þá skiluðum við álitum og það voru fjögur álit sem fóru frá efnahags- og skattanefnd til fjárlaganefndar um þetta stóra mál, mjög efnismikil álit og þar af tvö frá stjórnarflokkunum. Þau voru ekki tekin til efnislegrar meðhöndlunar í störfum nefndarinnar, þessi efnismiklu nefndarálit sem óskað var eftir af hálfu efnahags- og skattanefndar. Og fyrst svo var ekki, fyrst menn höfðu ákveðið, alveg sama hvað kæmi út úr þessum nefndarálitum, að málið yrði tekið út, til hvers var verið að óska eftir áliti efnahags- og skattanefndar? Til hvers er verið að eyða tíma þingmanna í eitthvað sem er tilgangslaust þegar menn hafa greinilega gefið sér niðurstöðuna fyrir fram?