138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál er eiginlega að verða miklu verra en mann óraði fyrir. Ég hafði ekki haft það hugmyndaflug einu sinni að láta mér detta í hug að það hefði ekki farið fram efnisleg umræða um þessi mál í efnahags- og skattanefnd. Við skulum ekki gleyma því að efnahags- og skattanefnd hafði þarna hlutverki að gegna. Það var ekki af tilviljun, það var ekki bara af einhverri fordild að ákveðið var að senda þetta mál til umsagnar í efnahags- og skattanefnd, það var vegna þess að efnahags- og skattanefnd hefur þetta afmarkaða hlutverk eins og við þekkjum samkvæmt þingsköpum Alþingis og því var eðlilegt að leita eftir áliti þeirrar nefndar. Nú er sem sagt upplýst að það hafi verið unnið þannig að kallaður var til valinn hópur af umsagnaraðilum, en öðrum hafnað, til að koma fyrir nefndina. Síðan búa menn til nefndarálitin sín sitt í hvoru horni án þess að fram hafi farið nein efnisleg umræða. Þó er það svo að í þessum nefndarálitum koma fram mjög veigamiklar efnislegar athugasemdir og ábendingar og hlutir sem gera það að verkum að mínu mati að sumt af því sem þar er verið að segja er svo alvarlegt að það verður að taka til alveg sérstakrar meðhöndlunar milli 2. og 3. umr. og síðar hér í umræðunni auðvitað líka.