138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir afar góða og yfirgripsmikla ræðu. Hún var sérstaklega áhugaverð og ég get verið sammála honum held ég bara um allt sem þar kom fram.

Þingmanninum varð tíðrætt um ofbeldið sem hann kallaði í efnahags- og skattanefnd og þá langar mig bara til að spyrja þingmanninn hreint út: Heldur hv. þingmaður eða taldi hann einhvern tímann standa til af hálfu meiri hlutans að breyta einhverju í frumvarpinu sem við ræðum hér? Var þetta allt saman kannski bara eitt stórt leikrit? Mér þætti gaman að fá álit þingmannsins á því.

Síðan hef ég verið að kalla eftir og er farin að hljóma eins og gömul plata, kalla eftir fundargerðum af fundum samninganefndar eftir að við samþykktum fyrirvarana í sumar, hvernig fyrirvararnir voru kynntir Bretum og Hollendingum. Og þá langar mig að spyrja þingmanninn: Var það atriði einhvern tímann rætt í efnahags- og skattanefnd?