138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nei, umræðan náði aldrei þeirri dýpt í efnahags- og skattanefnd, í ljósi þess hversu hratt þurfti að afgreiða málið í fullkomnu ósætti í nefndinni, að menn gætu farið í slík mál eins og að skoða fundargerðir þessarar samninganefndar. Mér er í raun og veru alveg fyrirmunað að skilja það, frú forseti, eftir þau afdrifaríku mistök sem síðasta ríkisstjórn gerði með skipan samninganefndar sem var einungis úr hennar ranni, að eftir að við samþykktum lögin 2. september skyldi enginn fulltrúi stjórnarandstöðunnar fara út fyrir hönd þjóðarinnar og semja við Breta og Hollendinga. Nei, þeir ákváðu að nota sömu gömlu samninganefndina að mestu leyti, sem því miður nýtur ekki mikillar þjóðhylli rétt eins og bara stjórnarflokkarnir í dag. Það er mér alveg óskiljanlegt að forusta stjórnarflokkanna skyldi ekki hafa leitað til stjórnarandstöðunnar þannig að við hefðum farið út til þessara samningaviðræðna sem ein þjóð, ein heild, og þá væri kannski niðurstaðan og umræðan hér (Forseti hringir.) með allt öðrum hætti en raun ber vitni.