138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:59]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega með öllu óásættanlegt ef þeim aðilum sem eiga að bera ábyrgð á lagasetningu í landinu, ef alþingismönnum er meinaður aðgangur að fundargerðum samninganefndarinnar. Það erum við sem þurfum að bera þennan kross eftir að þetta mál verður samþykkt með einhverjum hætti. Það er gengur náttúrlega ekki að við förum að samþykkja eitthvert frumvarp sem 63 þingmenn munu bera ábyrgð á án þess að hafa séð öll gögn. Hvað varð um þetta gagnsæi sem menn hafa verið að lofa í þessum efnum?

Og hvað varðar blekkingarleikinn, ég er alveg sannfærður um að menn hafa verið með fyrirframgefna niðurstöðu í þessu máli, rétt eins og þegar fyrri samninganefndin kom heim og ekki átti að sýna okkur samningsdrögin eða neitt slíkt. Það átti að afgreiða það með nákvæmlega sama hætti og nú verður gert, en ég vona að einstökum stjórnarliðum, eins og í vor og í sumar, snúist hugur þegar öll þessi rök koma á okkar borð um að það er svo margt sem við þurfum að skoða í þessu samhengi.