138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu sem ég get tekið að mestu leyti undir. Þar sem hv. þingmaður á nú sæti í efnahags- og skattanefnd langar mig að spyrja hann hvað honum finnist um það áhugaleysi eða eiginlega áhyggjuleysi stjórnarþingmanna um það hvort við getum yfirleitt staðið undir þessum samningum. Það kom fram í sjónvarpsþætti núna á helginni að í hollenska þinginu hefðu þingmenn miklar áhyggjur af því að Íslendingar gætu ekki staðið undir þessum samningum eins og þeir eru núna. Hvað finnst hv. þingmanni um það miðað við þau vinnubrögð sem hann hefur lýst hér að viðgangist í efnahags- og skattanefnd þar sem málið var tekið út í mótþróa við minni hlutann? Finnst honum ekki að hv. stjórnarþingmenn og sérstaklega hæstv. ráðherrar ættu að vera hér og taka þátt í umræðunum? Það hefur berlega komið margoft í ljós í þingsölum að margir hæstv. ráðherrar vita mjög lítið um þetta mál.