138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu áhyggjuleysi stjórnarþingmanna í þessari umræðu og í raun og veru metnaðarleysi fyrir hönd þjóðarinnar. Eins og ég nefndi áðan hefði augljóslega verið betra og betur til þess fallið í allri samningatækni að tilnefna fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem hefur látið verulega að sér kveða í umræðunni, fá fulltrúa hennar til að ræða við Breta og Hollendinga. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það sést ekki mikið til stjórnarþingmanna í þessari umræðu. Það er algjört máttleysi sem skín úr augum hv. stjórnarþingmanna, það er eins og menn séu búnir að leggja niður skottið og menn voru jafnvel á tímabili í vor búnir að því, en þá tóku nokkrir röggsamir stjórnarþingmenn sig til og skoðuðu málið í eigin barmi og höfðuðu til eigin samvisku. Útkoman var eftir því. Ég vonast í hjarta mínu bara til þess að við getum séð slíka niðurstöðu hér á þessu hausti.