138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að skjótt var brugðist við. Hæstv. forsætisráðherra er komin í salinn og fagna ég henni sérstaklega. Ég vildi bara koma hingað til að segja við hæstv. forsætisráðherra að ég hlakka líka mikið til að heyra sjónarmið hennar í þessu alvarlega máli vegna þess að hún missti af því á fimmtudaginn þegar ég lagðist í eilitla rannsóknarvinnu og komst að því að frá upphafi Icesave-málsins í meðferð þingsins hefur hæstv. forsætisráðherra tekið til máls í akkúrat 42 mínútur. Ég er viss um að hæstv. forsætisráðherra hefur meira um þetta mál að segja en sem því nemur þannig að ég hlakka mikið til að heyra sjónarmið hennar í þessari umræðu.