138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Þakka þér fyrir. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það hefur komið mjög skýrt fram í máli hv. þingmanns að hann og Framsóknarflokkurinn sem hefur verið ötull andstæðingur þessa máls og við í Sjálfstæðisflokknum erum ekki að fara fram með okkar málflutning með það að markmiði að fella stjórnina, síður en svo, heldur til að reyna að verja íslenska hagsmuni. Þeir eru náttúrlega ofar öllu í þessu máli og vörn þeirra er helsta takmarkið með okkar málflutningi. Við erum búin að benda á leiðir sem við getum farið til að reyna að bjarga því sem bjargað verður.

Í sumar voru viðhöfð athyglisverð vinnubrögð á þingi þegar við reyndum öll í stjórnarandstöðu sem og stjórnarmeirihlutinn að nálgast málið þannig að það væri verið að verja íslenska hagsmuni og hinir svokölluðu fyrirvarar voru samþykktir, íslensk lög sem voru samþykkt þá og eru enn í gildi. Ég spyr hv. þingmann: Hvað hefði hv. þingmaður, formaður Framsóknarflokksins, sagt ef ríkisstjórnin hefði haft þann dug í sér og sagt við stjórnarandstöðuformennina: Komið þið með okkur til Hollands og Bretlands, komið með okkur (Forseti hringir.) í að verja íslenska hagsmuni, hvernig hefðuð þið tekið í slíka málaleitan?