138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrsta vers sem menn læra í hagfræði er að við aðstæður eins og þessar þar sem vöruskiptaafgangurinn er svona mikill, ætti slíkt að öðru jöfnu að leiða til þess að gengið gæti verið að styrkjast og vissulega finnst manni að það séu ákveðnar forsendur fyrir því. Þess vegna vekur mjög mikla athygli sú spá Seðlabanka Íslands sem slær því föstu að við munum búa við mjög lágt gengi, ekki bara til skamms tíma eins og við höfðum kannski ímyndað okkur að gæti verið, heldur til mjög langs tíma. Í raun og veru eru engin fyrirheit gefin um það að gengið sé að styrkjast. Ef við förum yfir þetta og skoðum það sem liggur þarna til grundvallar er forsendan fyrir því að við getum staðið undir þeim skuldbindingum sem verið er að vísa til í rauninni sú að þessi staða verði áframhaldandi og þetta lága gengi verði áfram. Þess vegna vil ég árétta það með annarri spurningu: Er Icesave-samningurinn þá ein af forsendunum fyrir því að Seðlabankinn spáir þessu lága gengi til mjög langs tíma?