138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða og yfirgripsmikla ræðu. Hann kom réttilega inn á margt en mig langar að staldra við það sem hann nefndi að nú væri búið að skrifa samningana og hluta af fyrirvörunum inn í ensk lög og hann benti réttilega á að það hefur enginn sérfræðingur í enskum lögum lesið yfir samningana.

Mig langar að rifja það upp að þegar við samþykktum frumvarpið í ágúst sl. kom ábending á milli 2. og 3. umr. frá Indefence-hópnum um að það væri mjög æskilegt að við settum inn í lögin það ákvæði að Bretar og Hollendingar yrðu að samþykkja það með formlegum hætti að það yrði gert, þannig að þeir mundu viðurkenna það og gangast við því og laga síðan samningana að því, og líka í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið tekin svo oft.

Indefence-hópurinn hefur lagt á sig ómælda vinnu í sjálfboðavinnu við að verja land og þjóð í þessu máli og ég fullyrði það, frú forseti, að ef íslenska ríkið (Forseti hringir.) hefði þurft að greiða fyrir hana skipti það ábyggilega tugum milljóna, og þakklæti ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) er það að þessir aðilar fá ekki einu sinni að mæta hjá efnahags- og skattanefnd.