138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar einnig að staldra aðeins við það sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni sem er um það umboð sem samninganefndin fékk. Umboð hennar var ekkert flókið, hún átti að fara út og ganga frá skuldabréfi, ganga frá vöxtum og greiðsluplani.

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann að ef okkur verða hugsanlega dæmdar bætur vegna beitingar hryðjuverkalaga Breta á Íslendinga er búið að setja það inn í samningana að við föllum frá þeim, þ.e. við föllum frá því í samningunum að við eigum einhverjar bætur þar.

Síðan langar mig líka að minna á það af því að hann nefndi hér fjölfræðinginn sem er starfandi aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra, og hann hafi skrifað grein og gert lítið úr því sem Daniel Gros bendir á, að þegar Ragnar H. Hall benti á sína fyrirvara í sumar skrifaði sami fjölfræðingur líka grein um að þetta væri eintóm vitleysa og eintómt röfl. (Forseti hringir.) Í þriðja lagi er það til bókað í fundargerðum fjárlaganefndar sem þessi fjölfræðingur sagði, að við gætum borgað (Forseti hringir.) Icesave-skuldina þó að það væri enginn hagvöxtur.