138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni mjög yfirgripsmikla ræðu og skipulega. Það var ágætt að fá þetta allt saman rifjað upp lið fyrir lið. Þó að maður sé kannski orðinn svolítið þreyttur á því megum við ekki láta undan síga því að þetta er eitt versta mál sem við höfum þurft að glíma við.

Mig langar að heyra álit hv. þingmanns og formanns Framsóknarflokksins á stöðu forseta Íslands í þessu máli vegna þeirrar yfirlýsingar sem hann gaf við undirskrift laganna í sumar og hvað hv. þingmanni finnst um hana, hvaða merkingu sú yfirlýsing hefur í hans huga og hvort málið sé ekki komið í einhvern hnút á þeim bæ og hvort það mundi kannski hugsanlega hjálpa málinu umtalsvert ef hann sæi sér ekki fært að skrifa undir þessi lög.