138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þó að þetta hafi verið mjög góð fyrirspurn frá hv. þingmanni sakna ég þess að hvorki hæstv. fjármálaráðherra né hæstv. forsætisráðherra komi upp í andsvör við mig eins og ég bað um, enda þyrftu þau að svara hér mörgu en hafa ekki haft mikinn áhuga á því að taka þátt í umræðunni.

Ég tek undir með hv. þm. Þór Saari og þeim vangaveltum sem hann hafði fram að færa varðandi forsetann. Ég er raunar þeirrar skoðunar að í ljósi þeirrar sérstöku áritunar, þeirrar yfirlýsingar sem fylgdi staðfestingu forsetans á lögunum á sínum tíma, geti hann ekki með nokkru móti staðfest það lagafrumvarp sem hér er til umræðu jafnvel þótt Alþingi samþykki það. Það gengi gegn fyrri yfirlýsingu forsetans á margan og mjög afgerandi hátt.