138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að þetta sé alveg hárrétt að það er erfitt að snúa sig út úr þessu. Við höfum lög sem voru samþykkt í sumar og unnin þverpólitískt í þinginu og þó að endanleg atkvæðagreiðsla á þeim færi ekki samkvæmt þeim línum var hér greinilega viðleitni af hálfu þingsins að vinna málið saman.

Með því máli sem nú er í gangi er komin djúp gjá milli þings og þjóðar, eins og sagt hefur verið um önnur mál. Mikil óánægja er með framvindu þessa máls og mikil óánægja með hvernig það er sett fram og hvernig búið um það á allan hátt. Hvert er álit hv. þingmanns á því ef málið yrði einfaldlega dregið til baka og þau lög sem eru í gildi yrðu látin standa og Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin stæðu í lappirnar með þau lög sem eru vönduð og við eyddum miklum tíma í að samþykkja þverpólitískt í sumar?