138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil líkt og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mælast til þess að frú forseti beiti sér fyrir því að ríkisstjórnin, forustumenn hennar, komi til þessarar umræðu. Ríkisstjórnin hefur verið eins og höfuðlaus her hér í umræðunni í allan dag. Við hljótum að krefjast þess að hæstv. ráðherrar sem eru hér mér til beggja handa komi á mælendaskrá og svari öllum þeim fyrirspurnum sem við höfum lagt fram í umræðunni í allan dag. Það er náttúrlega verið að sýna málinu mikla lítilsvirðingu með því að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar skuli sitja hér þegjandi og komi ekki inn í þessa efnismiklu umræðu.

Svo vil ég segja það líka að mér fyndist rétt að við færum yfir þau álitamál sem hér hafa verið reifuð, frestuðum umræðunni, færum yfir málið í nefndunum og færum að snúa okkur að öðrum málum eins og fjárlögum, fjáraukalögum, skattamálum og óteljandi málum sem bíða okkar á þeim stutta tíma sem eftir er. Ríkisstjórnin heldur mjög óskynsamlega á þessum málum (Forseti hringir.) og ómálefnaleg og ólýðræðisleg vinnubrögð eru viðhöfð á þinginu.