138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í sumar þegar þessi mál voru til umræðu var mikið gert með það að nú væri verið að brjóta í blað með nýjum vinnubrögðum, nú hefði Alþingi tekið völdin af framkvæmdarvaldinu og það væri mjög mikilvægt að þessi umræða færi fram með lýðræðislegum hætti. Hluti af því er auðvitað að sú umræða fari fram í þingsal og við fáum að heyra sjónarmið fulltrúa ríkisstjórnarinnar í umræðunni. Hæstv. fjármálaráðherra hefur auðvitað á fyrri stigum gert grein fyrir sínum sjónarmiðum en við söknum þess hins vegar að hér skuli ekki vera þessar eðlilegu samræður, þessi eðlilega umræða sem á að vera þar sem fram koma sjónarmið ríkisstjórnarinnar.

Ef hæstv. ráðherrum vex það eitthvað í augum að taka þátt í slíkri umræðu með eðlilegum hætti er a.m.k. hægt að benda á að í þingsköpum hefur um árabil verið sérstakur liður sem heitir andsvör. Þau taka t.d. ekki nema tvær mínútur og jafnvel bara eina mínútu ef svo ber undir. Það ætti því ekki að vera ofverkið hjá hæstv. ráðherrum að undirbúa sig undir þessa umræðu, t.d. með því að taka þátt í litlu andsvari, tveggja mínútna andsvari eða einnar mínútu andsvari án þess að það kosti mjög mikinn efnislegan undirbúning sem gæti tafið hæstv. ráðherra frá þeirra mikilvægu störfum.