138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ekki bara kaldhæðnislegt, það er allt að því sorglegt að í þessari mestu og stærstu milliríkjadeilu síðari ára, núna þegar við erum komin með nýtt mál fyrir þingið þar sem er búið er að kollvarpa öllum fyrirvörum þingsins, þar sem við erum búin að lyppast niður, tekur forsætisráðherra Íslands til máls í fyrsta sinn og það er undir liðnum um fundarstjórn forseta. Það er sorglegt að forsætisráðherra hafi ekki fleiri athugasemdir inn í þetta mál. Við erum að tala um nýtt mál. Það er verið að fella úr gildi lög sem við komum okkur saman um á þinginu í sumar, með þó ákveðinni reisn.

En fyrst forsætisráðherra er byrjuð að tala um fundi hér í dag sem við forustumenn flokkanna áttum með forsætisráðherra og fjármálaráðherra skal það upplýst að við buðumst til þess að gera strax hlé á þessari umræðu, fresta henni fram á fimmtudag, funda strax í fjárlaganefnd ef svo bæri undir til þess að koma öðrum mikilvægum málum í gegn. Það skal undirstrikað hér. Við erum ekki í neinu málþófi, það er engan veginn þannig. (Fjmrh.: Nú?) Og við boðuðum ekkert einhverjar langar ræður, við boðuðum það að við mundum koma að sjónarmiðum okkar, minn kæri (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra. Það er þannig sem við gerum þetta. Við skulum svo gjarnan liðka til fyrir þínum málum, við skulum fresta þessu máli, (Forseti hringir.) það er ekki hægt að koma þannig fram að þetta hafi ekki verið dregið fram í umræðunni. (Gripið fram í.)