138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum, maður hefur auðvitað spurt sjálfan sig mjög: Hvernig hefur þessi mikli misskilningur komið til ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki ætlað sér að knýja á um lyktir Icesave-málsins? Ef ekki hefur verið rætt um það í samningaviðræðum Íslendinga við Norðurlöndin að þetta tengdist eitthvað Icesave-málinu hvernig í ósköpunum hefur þessi möguleiki komið upp? Hvað gerir það að verkum að hæstv. fjármálaráðherra segir örugglega í góðri trú að öll þessi samskipti verði í uppnámi ef við göngum ekki frá Icesave?

Það er rétt, ég tel einboðið að þær nefndir sem hv. þingmaður nefndi fái þetta mál til umfjöllunar nú á milli 2. og 3. umr., að fjárlaganefnd vísi málinu til þessara nefnda. Gleymum því ekki að á fyrsta degi okkar í þinginu undirrituðum við hvert og eitt eið að stjórnarskránni og það er hún sem allt þetta mál snýst um. Við verðum auðvitað að láta löggjöfina vera hafna yfir allan vafa og þess vegna er einboðið að (Forseti hringir.) þær þingnefndir sem hv. þingmaður nefndi taki þetta mál sérstaklega til umfjöllunar.