138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara þessari spurningu hv. þingmanns þyrfti ég sjálfsagt að vera einhvers konar pólitískur dulsálfræðingur en það er ég ekki. Séu einhverjir slíkir til í landinu væri áhugavert fyrir þær þingnefndir sem fá málið til umfjöllunar að kalla slíka sérfræðinga fyrir, ekki bara fjölfræðinga úr fjármálaráðuneytinu heldur pólitíska dulsálfræðinga til að velta því fyrir sér hvers vegna ríkisstjórnin, þrátt fyrir aðvörunarorð nánast úr öllum áttum, kýs að gera þetta.

Látum vera þó að hún vilji ekki hlusta á stjórnarandstöðuna núna þegar ekki hentar að gera það. Hitt er miklu undarlegra að hún skuli líka troða yfir álit tveggja mætra þingmanna úr sínum eigin röðum sem benda m.a. á það að krafa innlánstryggingarsjóðsins á hendur Landsbanka Íslands beri enga vexti en við þurfum hins vegar að borga fulla vexti. Þetta er auðvitað þvílíkt óréttlæti og ósanngirni og allir sjá hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir efnahagslífið og lífskjörin í landinu.