138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eðlilegast hefði verið að gera hlé á umræðunni, eins og þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu kröfu um fyrr í dag, til að geta tekið fyrir þær ábendingar sem birst hafa hér í dag og á undanförnum dögum. Þetta eru slík grundvallarmál sem koma annars vegar frá virtum lagaprófessor, sem lúta að stjórnarskránni, og hins vegar frá virtum sérfræðingi á sínu sviði, peningamálasviði, sem vekur athygli á þeim þætti sem Daniel Gros gerði, að það er auðvitað gjörsamlega vítavert að umræðunni skuli ekki hafa verið frestað og farið yfir þessi mál.

Að sjálfsögðu verður að fara yfir þessi mál milli 2. og 3. umr. og það verður að kryfja þau til mergjar, því að þetta eru slíkar grundvallarspurningar sem þarna er verið að spyrja.