138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hann minntist á framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en hann þarf ekki að vitna í nein munnleg samtöl vegna þess að í síðustu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í október 2009 stendur, á síðu 29 í kafla 38 þar sem rætt er um skilyrði og skilmála norrænu lánanna sem voru samtals 2,5 milljarðar dollara, með leyfi forseta:

„Útgreiðsla þeirra hefur verið tengd við lausn á Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga um innlánstryggingarkerfið.“

Það þarf ekki frekar vitnanna við. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir að norrænu löndin hafi tengt þetta saman. Ég spyr hv. þingmann: Hefði ekki verið eðlilegt á þessum tímapunkti að forsætisráðherra Íslands hefði kallað sendiherra þessara tveggja landa, Svíþjóðar og Noregs, til sín og spurt hvað það ætti eiginlega að þýða að vera að hjálpa til við að að kúga Íslendinga.