138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er spurningin hvað ráðamenn íslenskir gera. Ég vona að þeir heyri mál okkar þó að þeir sitji ekki í salnum. Mér finnst nefnilega að þeir eigi að kalla til sín sendiherra þessara landa og spyrja þá hreint út: Hvað þýðir það eiginlega að þið skulið vera að hjálpa Bretum og Hollendingum til að kúga okkur til að gera nauðasamninga, nauðungarsamninga, því að þetta er ekkert annað? Hér hefur komið fram aftur og aftur, bæði í máli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, í allri umræðunni og í sumar líka að þetta er kúgun og þetta er nauðung og við mundum aldrei nokkurn tíma semja svona. Við þyrftum sennilega ekki að borga neitt, en við mundum aldrei nokkurn tíma semja svona nema undir gífurlegum þrýstingi og hér kemur fram að þessar norrænu þjóðir eru að hjálpa til við að kúga okkur, því að það stendur hérna að þeir hafi tengt útgreiðslu lánanna við það að Íslendingar semji.