138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að árétta það sem ég sagði, auðvitað hefði verið eðlilegast að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hefðu tekið þetta mál upp á vettvangi Norðurlandaráðs og haldið á lofti málstað okkar af myndarskap gagnvart þessum þjóðum. Að því gefnu að þeir höfðu ekki döngun í sér til að gera það þar, er hitt vitaskuld alveg sjálfsagt sem hv. þingmaður nefnir, að sendiherrar þessara ríkja séu kallaðir á fund ráðherra okkar og þeim gerð grein fyrir alvöru málsins og hvernig við lítum þessi mál og við krefjumst þess að fá einhverjar skýringar á því hvort það sé svo að Norðurlöndin hafi staðið í vegi fyrir eðlilegri lánafyrirgreiðslu sem við áttum rétt á.

Kannski má skýra þetta mál með þeim hætti að hæstv. forsætisráðherra sé orðin dálítið mædd. Hæstv. forsætisráðherra skrifaði tvö bréf fyrr á árinu til forsætisráðherra Breta og forsætisráðherra Hollendinga. Annar forsætisráðherrann hefur ekki einu sinni virt hæstv. forsætisráðherra okkar svars, hinn svaraði seint og illa og gerði það með þeim hætti að hann kom ekki inn á nein efnisatriði sem máli skipta. Kannski er þetta til marks um það að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) er bara orðin mædd.