138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Nú hefur verið kallað eftir því í allan dag að nefndir Alþingis sem fjalla um þetta mál komi saman nú þegar og fari yfir þær athugasemdir sem hafa komið fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að eftir því verði gengið, það er ekki hægt að horfa fram hjá þessum upplýsingum varðandi mögulegt stjórnarskrárbrot um vexti og annað sem hér hefur komið fram.

Ég vil, frú forseti, einnig velta því upp við forseta að kannað verði hvort ástæða sé til samkvæmt 3. mgr. 23. gr. þingskapa að málið verði fært frá fjárlaganefnd yfir til efnahags- og skattanefndar vegna þeirra miklu breytinga sem hafa orðið á málinu og vegna þess nýja frumvarps sem fram hefur komið. Hér er heimilt samkvæmt þingsköpum að færa málin milli nefnda og ég skynja að það er full þörf á því að breyta um takt í þessu stóra máli. Því velti ég því upp við forseta að hún kanni það meðal formanna þessara nefnda og annarra nefndarmanna hvort rétt sé að bregðast við með þessum hætti.