138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

vísun Icesave aftur til nefndar.

[20:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Forseti. Ég ítreka það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi hér, nú er hv. þm. Pétur H. Blöndal að fara að halda ræðu um Icesave-málið og hv. þingmaður hefur haldið mjög vel utan um og bent á ýmsar gagnlegar upplýsingar í því máli svoleiðis að ég tel ákaflega mikilvægt að a.m.k. hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra séu komnir í salinn áður en hv. þingmaður hefur ræðu sína. Ég veit að þau eru í húsinu og helst vildi maður sjá hér fleiri ráðherra því að eins og fleiri hafa orðið til að benda á er mikill skortur á því að ráðherrar þekki þetta mál sem þeir tala þó fyrir af miklum ákafa og vilja koma hér í gegn sem allra fyrst, láta okkur tala hér án þess svo mikið sem að senda fulltrúa frá stjórninni á fundina. — Nú sé ég að einn stjórnarsinni hefur gengið í salinn.

Þetta er enn ein áminning um fáránleika þess að halda þinginu hér talandi langt fram á kvöld ef ráðherra sér sér ekki einu sinni fært að mæta.