138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þingmanni fyrir hans góðu ræðu. Það mætti halda af þeirri umræðu sem gjarnan fer fram á stjórnarheimilinu — hún minnir mig eiginlega á 2000-vandann svokallaða, honum hafði verið spáð í mörg mörg ár en hann kom aldrei. Menn eyddu fleiri tugum milljóna eða hundruðum milljóna í það að búast við einhverjum vanda sem aldrei kom og nú býst þessi ágæta ríkisstjórn við því að 2000-vandinn komi aftur með einhverjum hætti. Það eru líka til sértrúarsöfnuðir sem spá heimsendi alltaf reglulega. Þeir loka sig inni í herbergjum einhvers staðar og bíða eftir heimsendi en hann kemur aldrei. Ég vil velta því upp við hv. þingmann hvort það geti verið þannig. Eða hver er aðalleikandinn í þessu verki öllu saman, hver er aðalleikari, leikstjóri og höfundur leikritsins um leið, sem er að kúga okkur í þessu máli? Hver er okkar helsti kúgari í þessu stóra Icesave-máli? (Gripið fram í: Fjölfræðingurinn.)