138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað vonar maður að allt gangi vel. Auðvitað vonar maður að það verði hagvöxtur á Íslandi og við getum borgað þetta léttilega og allt slíkt. En það gæti komið upp sú staða að við getum ekki einu sinni borgað vextina. Hvað gerist þá, frú forseti? Þá verður íslenska ríkið komið í vanskil og þeir sem eru vanskilamenn þekkja þá tilfinningu að vera vanskilamaður, og þá þurfum við að sæta afarkostum hjá Bretum og Hollendingum. Það sem ég óttast mest í því sambandi er að þeir vilji þá að Landsvirkjun verði seld til hollensks fyrirtækis o.s.frv. og það verði virkjað eins og ég veit ekki hvað á Íslandi o.s.frv. Það sem maður óttast líka er að unga fólkið flytji burt og það verði verðhjöðnun í Bretlandi og Hollandi, það er það sem ég virkilega óttast því að þá þurfum við að borga ægilega háa raunvexti af láni sem við getum aldrei borgað niður og erum endalaust að borga vexti af.