138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr):

Frú forseti. Ég er kominn hingað upp í annað sinn í þessari umferð hins elskulega Icesave-máls sem ég veit nú orðið svo margt og mikið um. Ástæðan er einfaldlega sú að fram hefur komið fram töluvert mikið af nýjum upplýsingum síðan ég talaði hér síðast, sem var nú ekki fyrir ýkja löngu síðan, upplýsingum sem skipta mjög miklu máli fyrir stöðu málsins og framvindu þess og fyrir þingið og almenning á Íslandi. Þess vegna mun ég nú fara yfir þessi mál. Sumt af því er nýtilkomið, t.d. álit Daniels Gros á þeim vöxtum sem við hefðum hugsanlega getað fengið lagfærða. Það eru gögn sem Seðlabankinn hefur lagt fram en við höfum ekki fengið aðgang að, gögn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, skattar sem snúa að þessu máli og hvað þetta mun kosta Íslendinga í sköttum, ákvæði er varða vafaatriði sem snúa að stjórnarskránni o.fl.

Ég las hér upp fyrir helgi álit 1. minni hluta fjárlaganefndar sem ég skrifaði. Þar kemur fram að minni hlutinn, þ.e. í þessu tilfelli ég, átelur málsmeðferð fjárlaganefndar þar sem meiri hluti fjárlaganefndar hafnaði að ræða ýmis brýn álitamál varðandi greiðslugetu þjóðarbúsins, efnahagslegar forsendur og ýmsa óvissuþætti sem upp gætu komið. Því var einnig hafnað að skoða ýmsar nýjustu tölur sem sýna fram á að erlendar skuldir ríkissjóðs eru hugsanlega orðnar óviðráðanlegar. Ekki var skoðað hvaða lagalegu gildi það hefur að ríkisábyrgðin á þessum lánum er ótakmörkuð í tíma og umfangi. Við vitum að skuldsetning þjóðarbúsins erlendis er komin langt umfram það sem gerist hjá mörgum skuldugustu þjóðum heims og miklar líkur eru á því að þjóðarbúið komist einfaldlega í greiðsluþrot ef þær forsendur sem stjórnvöld gefa sér um þetta mál halda ekki og það er satt best að segja frekar ólíklegt að þær haldi.

Við höfum forsendur sem Seðlabankinn hefur gefið sér, greiðslurnar af þessum Icesave-lánum eru í erlendum myntum, í evrum og pundum, og til þess að geta borgað þau þarf að afla gjaldeyris með afgangi af útflutningstekjum. Tölur Seðlabankans sýna hins vegar, eins og fram hefur komið, að halli á vöru- og þjónustujöfnuði hefur alla jafna verið neikvæður, hann var neikvæður tólf af síðustu nítján árum. Afgangur hefur mestur verið 22 milljarðar árið 1994 og þau sjö ár á tímabilinu 1990–2008 þegar halli á viðskiptum við útlönd var jákvæður var samanlagður afgangur öll þessi ár 76 milljarðar kr. Samanlagður halli á vöru- og þjónustujöfnuði frá árinu 2000 er 632 milljarðar eða 70 milljarðar kr. að meðaltali á ári. Umsögn Seðlabankans frá því í sumar um þetta mál gerir hins vegar ráð fyrir 163 milljarða kr. afgangi af viðskiptum við útlönd að meðaltali á hverju einasta ári næstu tíu árin. Þessar spár gera einnig ráð fyrir að útflutningstekjur verði um helmingur vergrar landsframleiðslu en það hlutfall er algjörlega óraunhæft. Seðlabankinn sjálfur lýsti því yfir að það væri óraunhæft þegar hann fjallaði um málið í sumar. Þetta eru þær tölur sem ríkisstjórnin fer fram með í þessu Icesave-máli og ætlast til að þær gangi upp.

Ég er með upplýsingar um þetta mál í myndrænu formi. Hér er mynd, efri myndin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem sýnir fram á úr skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að vaxtagjöld þjóðarinnar verða milljörðum og tugmilljörðum króna hærri en afgangur af vöruskiptajöfnuði næstu fimm árin. Fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lýsti því fyrir efnahags- og skattanefnd fyrir ekki mörgum dögum að skuldir Íslands næstu árin væru ósjálfbærar, það væri ekki hægt að borga þær niður. Þaðan kemur einfaldlega þetta álit að við ráðum ekki við skuldirnar, það kemur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann sagði jafnframt að einhvern tímann í framtíðinni gætum við borgað þetta niður og þess vegna væri málið í lagi.

Við höfum líka vöruskiptadrauma Seðlabankans, eins og þetta heitir á þessari mynd. Þetta er einkar fögur mynd þar sem kemur fram að framtíðin er ekki í neinum tengslum við fortíðina eða þann efnahagslega raunveruleika sem Ísland hefur búið við undanfarna áratugi í viðskiptum við útlönd. Í rauninni virðist skáldagáfa hafa hlaupið í spámenn Seðlabankans í þessu máli. Það er kannski við hæfi að fjárlaganefnd hefur nýverið fjallað um fjárveitingar til Spákonuseturs á Skagaströnd og e.t.v. væri vænlegt að leita þangað ef það erindi fær jákvæða umfjöllun.

Í minnihlutaáliti fjárlaganefndar er tekið fram að það þurfi að skoða skuldastöðu þjóða með hliðsjón af aðstæðum í hverju landi. Það er ekki endilega málið hvort ríkið geti staðið undir skuldbindingum sínum heldur hvort þjóðin geti það. Ríkið getur staðið í skilum með því að taka einfaldlega þessa upphæð af þjóðinni í formi hærri skatta og skertrar velferðarþjónustu. Kannast einhver við þetta, hærri skattar og skert velferðarþjónusta? Því stöndum við frammi fyrir í dag. Þetta snýst um efnahag Íslands, hvort á meðan á greiðslum stendur verði farið svo djúpt í skattlagningu almennings að upp úr því verði seint komist. Við skulum ekki gleyma því að fólk og fyrirtæki eru hreyfanleg og mörg þeirra munu örugglega flýja land ef of langt verður gengið í skattheimtu og skerðingu lífskjara. Eins og fram hefur komið er einnig gert ráð fyrir því að raungengi, þ.e. sú tölfræði sem segir okkur hversu efnaðir Íslendingar muni vera næstu árin og áratugina, verði mjög lágt. Ekki bara lágt heldur mjög lágt sem þýðir að kaupmáttur Íslendinga mun halda áfram að vera um eða rétt yfir helmingi á við það sem gerist hjá nágrannaþjóðunum.

Þetta er gríðarlega merkilegt og mikilvægt mál, frú forseti, því að eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal kom inn á skipta vextir höfuðmáli í þessu. Þessir nýju glæsilegu samningar sem ríkisstjórnin kom heim með fyrir nokkrum vikum síðan hljóða upp á vexti sem eru gríðarlega háir, vexti sem við munum þurfa að borga og það skiptir ekki máli hvernig efnahagsástandið á Íslandi verður. Það er búið að taka þann hluta af fyrirvörunum sem settir voru í sumar úr sambandi þannig að vextirnir verða ávallt greiddir. Í sumar var talað um að vextirnir af þessu væru um 100 millj. kr. á dag miðað við gengisbreytingar. Síðan hefur sú tala hækkað og er sennilega komin upp í um 110–115 millj. kr. á dag, 365 daga á ári. Vægt reiknað eru það 36,5 milljarðar á ári í vexti af Icesave.

Frú forseti. Miðað við tekjuforsendur fjárlaganna eins og þær liggja fyrir hjá fjárlaganefnd núna munu einstaklingar greiða tæplega 83 milljarða í tekjuskatt. Reiknað er með um 180.000 greiðendum og meðaltekjuskattur á greiðanda er um 462.000 kr. Þetta þýðir, frú forseti, að allur tekjuskattur sem ríkið fær frá 79.000 einstaklingum fer í að borga bara vextina af Icesave árið 2009, 44% af öllum tekjuskatti.

Tölurnar frá ríkisskattstjóra eru öllu skaplegri enda hafa þeir ekki gert ráð fyrir eins mikilli lækkun á tekjuskattstekjum ríkissjóðs og fjárlaganefnd hefur gert. Miðað við tölur frá ríkisskattstjóra er þessi sama tala um 70.000 manns, þ.e. tekjuskattur sem fer í að greiða vexti af Icesave. Miðað við tölu ríkisskattstjóra fara 39% af öllum tekjuskatti ársins 2009 í að greiða vexti af Icesave, 32% af samanlögðum tekju- og fjármagnstekjuskatti fara í að greiða vexti af Icesave. Allur innheimtur fjármagnstekjuskattur ársins í ár dugir fyrir réttum helmingi af vaxtagreiðslum af Icesave.

Frú forseti. Um þetta þarf þingið að upplýsa almenning. Hvað verður um skattana þína árið 2009, kæri Íslendingur? Ert þú einn af þeim tæplega 80.000 einstaklingum hvers tekjuskattur fer í að borga vextina af Icesave? Þetta er hrikaleg staða og það er ekki hægt að bjóða fólki upp á svona fjármálastjórn og efnahagsstjórn. Þetta er alveg út í hött og það verður að koma í veg fyrir þetta. Ef ríkisstjórnin og stjórnarliðar treysta sér ekki til að taka á þessu máli hljótum við einfaldlega að gera ákall um að hér verði kosið að nýju. Ég hef stutt þessa ríkisstjórn og geri það að öllum líkindum eitthvað enn en ég mun kalla eftir viðbrögðum við þessum upplýsingum. Ég mun kalla eftir nýjum kosningum og nýrri ríkisstjórn ef það á að halda áfram með þessum hætti, að tekjuskattur 80.000 manns fari í að greiða bara vextina á þessu ári, næsta ári, þarnæsta ári, o.s.frv. Það er ekki hægt að ganga svona fram, því miður.

Viðbrögð stjórnvalda síðan gengið var frá þessum lögum og þau voru samþykkt hér á þinginu síðla sumars hafa verið fálmkennd. Heimur embættismannanna sem komu heim með Icesave-samninginn í sumar var hruninn, sjálfsmynd þeirra var gerð að engu því að þeir komu heim með ónýtan samning. Ríkisstjórnin tók upp símann, hringdi í sömu embættismenn og sendi þá út af örkinni til þess að kynna niðurstöðu þingsins. Þeir komu heim með nýjan samning og með sömu aðferðum og beitt var við upphaflega samninginn voru fyrstu kynningarnar botnlausar blekkingar og ósannindi. Það er eingöngu verið að fitla aðeins við lokadagsetningu á ábyrgðinni, var sagt við fulltrúa og formenn stjórnmálaflokkanna sem komu á fyrsta fund ríkisstjórnarinnar. Annað hefur komið í ljós því það eru tugir atriða sem eitthvað er athugavert við og það virðist ekkert lát vera á þessari andskotans vitleysu.

Afsakið orðbragðið, frú forseti. Mér er heitt í hamsi út af þessu máli, það er búið að vera hér inni allt of lengi vegna vanhæfni stjórnvalda og stjórnsýslunnar til að vinna að þessu máli. Það er einfaldlega kominn tími til að tekið sé til í þessum geira hjá þeim mönnum sem fóru svona með þetta mál. Þeir komu fyrir fjárlaganefnd til að útskýra hvernig þeir hefðu farið að því að kynna þetta mál erlendis á sínum tíma og það var greinilegt á fyrstu mínútunni að þessir embættismenn skildu ekki um hvað málið snerist. Það var ótrúlegt að verða vitni að þessu.

Þessir samningar og þessi vinnubrögð eru óréttlætanleg gagnvart landi og þjóð og óásættanleg frá réttlætis- og sanngirnissjónarmiðum. Við skulum ekki gleyma því að sú jafnræðisregla sem er meginþema í Evrópusambandinu, og hv. svokallaður fjölfræðingur hæstv. fjármálaráðherra þekkir einfaldlega ekki, var sú regla sem stuðst var við þegar t.d. Elvira Méndez lýsti því yfir að upphaflegu Icesave-samningarnir yrðu dæmdir ógildir í Evrópu vegna þess að það hallaði svo mikið á annan samningsaðilann. Daniel Gros vísar til þessarar sömu jafnræðisreglu þegar hann segir að vextirnir yrðu dæmir ólöglegir í Evrópu vegna þess að þeir eru svo rangir. Fjölfræðingurinn kann ekki skil á þessari almennu jafnræðisreglu sem er sett út frá sanngirnissjónarmiðum.

Við sitjum uppi með að almenningur mun greiða skuldir Björgólfsfeðga og útrásarvíkinga í þessu einstaka máli, í það mun fara tekjuskattur 70.000 til 80.000 einstaklinga. Að ríkisstjórninni skuli í fyrsta lagi detta þetta í hug er ótrúlegt. Mér finnst þetta slík vanvirðing við almenning að það tekur engu tali. Allar forsendur sem gefnar eru í þessu máli eru varhugaverðar og þess vegna, frú forseti, var farið af stað í sumar með þessa fyrirvara sem voru góðir, sanngjarnir og eðlilegir. Það var ekkert athugavert við þá og þeir erlendu sérfræðingar sem ég talaði við voru sammála mér þegar ég útskýrði fyrir þeim hvers vegna þeir hefðu verið settir og hvað í þeim fólst. Við ætlum að reyna að borga og ef það verður hagvöxtur borgum við en ef allt verður hér í kaldakoli og gengur illa þá ráðum við einfaldlega ekki við það og þið verðið að virða það við okkur. Þetta hljómar ekkert vitlaust, sögðu þeir, þetta er vel til fallið. Tekið er á öllum þeim áhættuatriðum sem þarf að taka á í þessu, það er ekkert ósanngjarnt við þetta. Íslenskum stjórnvöldum tókst engu að síður að koma þessu í þannig hnút að það stendur ekki lengur steinn yfir steini.

Við sitjum uppi með að hærri skattar eru við það að knésetja heimilin og hvað gerir ríkisstjórnin þá? Opnar fyrir útgreiðslu lífeyrissparnaðarins. Við byrjum á séreignarsparnaðinum, þar eru tekjur fyrir ríkissjóð til þess að borga niður þessar skuldir. Almenningur er neyddur til þess að taka út lífeyrissparnaðinn sinn til þess að eiga fyrir næstu afborgun af húsinu og ríkið hirðir nærri 40% af þeirri upphæð. Ég er nærri viss um að séreignarsparnaður er aðeins fyrsta skrefið enda hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn alltaf lýst því yfir að Íslendingar séu svo ríkir, þeir geti alveg borgað af því að þeir eigi svo digra lífeyrissjóði.

Skyldi það ekki vera málið, frú forseti, að það verði lífeyrissparnaður Íslendinga, sem við höfum lagt svo hart að okkur að safna á undanförnum áratugum, sem verður skattlagður og 40% af þeim sparnaði verði notað í að greiða þetta? Þvílík hneisa, þvílík niðurstaða. Þetta hefði verið hægt að gera miklu betur og enn þá er hægt að gera miklu betur ef ríkisstjórnin er viljug til þess að draga þetta frumvarp til baka og benda Bretum og Hollendingum á að hér séu í gildi íslensk lög og þau nái yfir þetta mál.

Frú forseti. Þegar lífeyrissjóðirnir eru farnir stöndum við frammi fyrir því sem er þegar hafið, það er varðandi náttúruauðlindirnar. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um þær. Við vitum til þess að búið er að taka veð í orkusölusamningum Hitaveitu Suðurnesja sem þýðir í rauninni ekkert annað en að það er búið að veðsetja auðlindina. Orkuveita Reykjavíkur er komin í mikla steypu með öll sín mál og skuldar um 230 milljarða kr., þessi gullkálfur Reykvíkinga sem átti ekki að geta klikkað. Það er allt að fara í hítina og ég held að það sé kominn tími til að við förum að taka á þessum málum af alvöru og reyna að leysa þau af einhverju viti.

Endurheimtur úr Landsbankanum, segir fólk. Það hefur lengi verið bent á að eftir svona fjármálakreppur eru eignir banka ofmetnar og skuldir vanmetnar. Það er ekki lengra síðan en núna um helgina og í síðustu viku að það kom í ljós að skuldir Glitnis voru umtalsvert vanmetnar og að það hefði orðið umtalsverð eignarýrnun hjá Landsbankanum. Það mun halda áfram að einhverju marki, hversu mikið veit enginn vegna þess að enginn hefur fengið að sjá t.d. eignir Landsbankans nema skilanefndin sjálf sem hefur alla tíð haldið því fram að eignirnar mundu ekki rýrna. Það er kominn tími til að fjalla um þetta mál að nýju eða draga þessi lög til baka.

Þrjú önnur mikilvæg atriði hafa komið upp núna undanfarna daga. Í fyrsta lagi álitsgerð Daniels Gros, þess mikilsmetna fræðimanns sem fjölfræðingur Íslands hefur einfaldlega hæðst að. Hún snýr að þessari jafnræðisreglu, að bresk og hollensk stjórnvöld lána sínum tryggingainnstæðusjóði fé á vöxtum sem mundu spara Íslendingum nærri því 200 milljarða ef sanngirni væri gætt. Þessi ábending er ekki tekin til greina heldur er hæðst að manninum, þannig eru viðbrögðin.

Frú forseti. Við höfum líka merkilegt mál sem er sú yfirlýsing sem forseti Íslands gaf þegar hann undirritaði lögin í haust þar sem hann beinlínis lýsir því yfir að hann undirriti þau vegna þeirra fyrirvara sem koma fyrir í lögunum, þeirra efnahagslegu fyrirvara sem vernda þjóðina og landið gegn því tjóni sem það gæti annars orðið fyrir ef ekki gengur vel. Hér er komið stórt spurningarmerki í þetta mál og ég held að það væri ráð að inna hæstv. forseta Íslands eftir því hvað honum finnst um þessi nýju lög. Það mundi skýra málið (Gripið fram í.) og marka því kannski farsælli stefnu ef í ljós kæmi að honum fyndist núverandi frumvarp óásættanlegt frá hættusjónarmiði séð.

Síðast en ekki síst ber að nefna þann stjórnarskrárvafa sem er kominn upp í málinu og lýtur að því að ríkisábyrgðin er ótakmörkuð í tíma og umfangi. Það er óheimilt af hálfu ríkisstjórnarinnar að skrifa upp á blankan tékka, ekki bara blankan hvað upphæðina varðar heldur einnig ódagsettan. Hann verður kannski með undirskrift hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar sem verður búinn að vera ansi lengi á eftirlaunum þegar þessi skuld verður uppgreidd en börnin okkar og barnabörnin munu halda áfram að borga.

Ég sé að hæstv. fjármálaráðherra kemur hér í dyrnar og ég vil honum ekki neitt illt með þessari orðræðu minni. Ég vil heldur skora á hann að draga þessa frumvarpsnefnu sína til baka og senda út vaska sveit fólks og þingmanna til nágrannalandanna til þess að kynna af fullri alvöru, hæstv. fjármálaráðherra, þau lög sem þing þjóðarinnar samþykkti í sumar. Þau lög eru sanngjörn, eðlileg og réttmæt og gera ráð fyrir að þessi skuld verði greidd en með ákveðnum formerkjum sem vernda þjóðina en leiða ekki til þess að árið 2009 fari tekjuskattar 79.000 Íslendinga í það eitt að greiða vexti af Icesave.