138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Málið var ekki rætt efnislega í fjárlaganefnd frekar en í efnahags- og skattanefnd. Fólk kom og lýsti álitum sínum og veitti umsagnir um þetta mál en þegar þær umsagnir voru yfirstaðnar var málið bara rifið út úr nefndinni. Ég hef rekið mig á það varðandi fleiri mál í nefndum þingsins að þau eru ekki rædd efnislega eftir að umsagnir hafa borist heldur eru umsagnirnar látnar duga og síðan semja menn sín meiri- og minnihlutaálit og leggja þau fram.

Núna er þetta unnið með allt öðrum hætti en í sumar. Í sumar var til fyrirmyndar hvernig fjárlaganefnd stóð að þessu máli og vinnubrögð bæði meiri hlutans og minni hlutans og formanns nefndarinnar voru til allrar fyrirmyndar. Það er dapurlegt að þau vinnubrögð voru lögð af núna í haust því að það hefði svo sannarlega mátt nota þau áfram.