138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil gjarnan fá að eiga orðastað við forseta varðandi lengd fundarins. Nú vantar klukkuna fimm mínútur í tíu að kvöldi og ég vil gjarnan fá að vita hvort við ætlum að ræða þetta mikilvæga mál lengi fram eftir. Í ljósi mikilvægis málsins finnst mér skipta máli að við förum ekki að draga umræðuna inn í nóttina, ekki síst vegna þess að hæstv. ráðherrar hafa ekkert verið allt of duglegir við að blanda sér í umræðuna, koma upp í ræðustólinn og taka þátt í samræðum sem skipta okkur svo miklu máli, að fá upplýsingar og samræðu um þetta hörmulega Icesave-mál allt saman.

Ég legg því mikla áherslu á að fá svör frá hæstv. forseta þingsins um það hvort við ætlum að vera hér inn í nóttina. Þó að við áttum okkur á því að verið sé að fremja mikil myrkraverk (Forseti hringir.) í þessu máli tel ég engu að síður ekki við hæfi að við ræðum (Forseti hringir.) þetta langt inn í nóttina.