138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi heiðarleikann tek ég algjörlega undir það að mér finnst það miklu heiðarlegra að koma fram nú þegar og segja að þessi samningur sé óaðgengilegur og í raun og veru eins og menn hafa lýst honum, hálfömurlegur og kannski sá lélegasti milliríkjasamningur sem gerður hafi verið og geri það að verkum að áhættan af því að við getum ekki staðið við skuldbindingar okkar sé gríðarlega mikil. Það sé langtum heiðarlegra gagnvart þeim sem við erum að taka lán hjá að segja einfaldlega að þetta sé of langt gengið og við verðum að semja af meiri skynsemi til að báðir aðilar geti staðið í lappirnar þegar upp er staðið.

Varðandi það hvort þetta sé aðgöngumiðinn að Evrópusambandinu hefur það auðvitað komið fram í umræðunni oft á tíðum að menn óttist að þetta sé einn af þeim ókostum sem við þurfum að undirgangast, (Forseti hringir.) eitt af því sem við verðum að sætta okkur við til þess að fá inngöngu í þetta svokallaða (Forseti hringir.) alþjóðasamfélag sem sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar hafa verið óþreytandi við að hræða okkur með úr ræðustól Alþingis.