138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Hann fór mjög vel yfir það hvernig hefði verið haldið á málinu alveg frá upphafi og það gerðist með þeim hætti að fyrst var skrifað undir þennan ömurlega samning 5. júní og síðan gerðist það að Alþingi lagðist í það að gera sterka og góða fyrirvara við þann samning sem varð síðan að lögum í lok ágúst.

Nú koma þessir útþynntu fyrirvarar, það er búið að þynna þá út og bora á þá göt alls staðar og það er alveg með ólíkindum vegna þess að þegar búið var að setja fyrirvarana sögðu forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að þeir fyrirvarar sem Alþingi var búið að setja rúmuðust innan samningsins. Það var alveg klárt og kvitt, þingið hafði svo sem ekki gert neitt nema bara þá sæmilegt verk, (Gripið fram í.) já, og hæstv. utanríkisráðherra benti á að menn þyrftu hugsanlega skapandi hugsun til þess að kynna þetta fyrir þjóðinni.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort honum finnist hæstv. ríkisstjórn hafa staðið sig í því að koma þessum skilaboðum (Forseti hringir.) Alþingis á framfæri eins og þeir hafa hagað sér í því.