138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningar hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar. Þetta er auðvitað, eins og áður hefur komið fram hér í kvöld, sérkennileg umræða þar sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar erum satt best að segja að spyrja hvert annað um það hvernig ríkisstjórnin hugsi og hæstv. ráðherrar og meiri hluti stjórnarþingmanna. Ekki taka þeir þátt í umræðunni, ekki upplýsa þeir nákvæmlega um þessa hluti sem hv. þingmaður kom inn á.

Þó er held ég augljóst að sú umræða sem hefur farið fram og kynningin á málinu var með þeim hætti, það er ágætt að það var rifjað í máli hv. þingmanns, að upphaflega kom þetta inn í þing alveg óundirbúið. Við höfðum það alla vega á tilfinningunni og ég held að það megi segja að það hafi ekki átt að kynna okkur nokkurn (Forseti hringir.) skapaðan hlut um það. Vegna harðfylgis stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) og fjölmiðla er þetta síðan fram komið. Við gerðum það sem (Forseti hringir.) við gátum í sumar en því miður er búið að draga allar vígtennur úr því.