138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins taka við boltanum þar sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson skildi við hann áðan varðandi vanþekkingu annarra þjóða. Þegar maður lítur núna yfir ferlið allt frá 5. júní sést að þingið mátti í fyrsta lagi ekki fá að vita hvert innihald samningsins var. Það var ekki að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sem við hér í þinginu fengum að vita hvert innihald samningsins var, heldur allra annarra.

Ég velti því líka fyrir mér eftir allan þann hamagang sem var í þinginu og þau góðu vinnubrögð sem voru viðhöfð sl. sumar hvernig ríkisstjórnin síðan lyppast niður og þorir ekki að berjast fyrir rétti okkar eftir að þingið hafði náð nokkuð mikilli samstöðu hér sl. sumar. Við horfum síðan á yfirlýsingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Dominique Strauss-Kahns að það hafi verið Norðurlandaþjóðirnar sem hafi knúið fram þennan samning, síðan sjáum við að það liggur ekkert á. Allt í einu eru lánafyrirgreiðslurnar komnar, allt er í góðu þótt við séum ekki búin að afgreiða málið eins og ríkisstjórnin kýs að gera það.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann, því framsóknarmenn hafa fylgt þessu máli mjög vel eftir og eru vel inni í því, (Forseti hringir.) hvert er hans mat á því að þingið taki sér meiri tíma, að við bíðum aðeins (Forseti hringir.) með þetta mál og förum betur yfir það, alla vega mun betur en ríkisstjórnin hefur gert?