138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða hvað það er ánægjulegt að hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru uppteknir af Sjálfstæðisflokknum og að þeir geti ekki komið hingað upp nema að ræða hann, heldur er ég að fara að ræða mál sem er mjög alvarlegt. Ég er búinn að taka það upp nokkrum sinnum ásamt fleirum, m.a. í utandagskrárumræðu. Þar gerðist nokkuð sem ég veit ekki til að hafi gerst áður, hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svaraði ekki spurningum mínum heldur sagði að þær væru í nefnd og að hann vildi ekki trufla nefndina. Það er annað mál.

Stóra einstaka málið er það (Gripið fram í: Það er annað en sjávarútvegsmálin.) að ég fór fram á að við fengjum forsvarsmenn bankanna á fund hv. viðskiptanefndar. Þeir staðfestu að nú færu fram afskriftir hjá fyrirtækjum án þess að það væru samræmdar reglur, án þess að eftirlitið væri skýrt, og við vitum öll að það er ekkert gagnsæi hvað þetta varðar, ekkert. Það eru misvísandi skilaboð og núna áðan sá ég í fréttum, hvort sem þær eru réttar eða rangar, að verið er að afskrifa stórar upphæðir hjá ákveðnu fyrirtæki en forsvarsmenn bankanna hafa sagt að það sé ekki rétt. Við vitum öll að það þarf að afskrifa skuldir fyrirtækja. Það er hins vegar algerlega ljóst að það er ekkert traust á bönkunum eins og staðan er núna og það er alveg gríðarlega alvarlegt. Við förum ekki í þetta verkefni og við náum ekki árangri ef ekki er traust fyrir hendi.

Ég hef farið fram á það ásamt fulltrúum stjórnarandstöðunnar að hv. viðskiptanefnd taki saman skýrslu eins og okkur er heimilt og ber að gera og skili henni til þingsins með tillögum til úrbóta. Nú er tækifæri fyrir þingið að taka á málum. Ég spyr hv. þm. Lilju Mósesdóttur, formann viðskiptanefndar, (Forseti hringir.) hvort hv. þingmaður og formaður viðskiptanefndar verði við þessu og að við sinnum sjálfsögðu eftirlitshlutverki þingsins.