138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í merkri ræðu um helgina á fundi hjá samfylkingarfélögum hélt hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttur ræðu þar sem fjallað var um áherslu á stórframkvæmdir sem fram undan eru. Því ber að fagna. Nánar tiltekið sagði forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Ég er sannfærð um að öllum hindrunum í vegi Suðvesturlínu, sem er forsenda fyrir þróun orkuháðs iðnaðar á þessu svæði, verði rutt úr vegi þannig að framkvæmdir við hana geti hafist á næsta sumri. Forráðamenn Norðuráls segja nú að framkvæmdir við álver í Helguvík fari á fullt í vor og það mun skapa mikla atvinnu. Ég hef einnig góðar vonir um að vinna við Búðarhálsvirkjun hefjist með vorinu en orku frá henni verður að verulegu leyti ráðstafað til endurnýjaðs álvers í Straumsvík.“

Þessi ummæli hafa vakið hörð viðbrögð hjá Vinstri grænum sem telja sig ekki alveg skilja hvað hæstv. forsætisráðherra er að tala um þarna. Þess vegna vil ég beina spurningu til hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem situr í umhverfisnefnd, er fyrrum umhverfisráðherra og þingmaður í Suðvesturkjördæmi þar sem álverið í Straumsvík er staðsett, það mun styrkja það fyrirtæki og skapa væntanlega störf í bæjarfélaginu og á því svæði, hvort hún sé ekki sammála mér um að þessari ákvörðun og yfirlýsingu forsætisráðherrans beri að fagna. Að það sé í rauninni ekkert í þessum ummælum hennar sem þurfi nánari skýringa við. Það eigi einfaldlega að flýta þessari vinnu og ryðja burtu öllum þeim hindrunum sem eru í vegi fyrir því að þetta mál fari í gegn hratt og vel svo hægt sé að skapa störf og byrja á þessum stórframkvæmdum sem skipta íslenskt þjóðarbú og ekki síst kjósendur í mínu kjördæmi og hennar kjördæmi svo miklu máli.