138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Reykjavíkurflugvöllur -- verklagsreglur bankanna -- Suðvesturlína o.fl.

[13:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er freistandi að blanda sér í eitthvað af þeim fjölmörgu málum sem hér hafa verið tekin fyrir í þessari umræðu. Ég verð þó að nefna að þingheimur bíður enn í eftirvæntingu eftir því að heyra frá hæstv. forsætisráðherra og verður vonandi skýrt á næstu dögum hvernig samskipti hæstv. forsætisráðherra við kollega hennar í Bretlandi og Hollandi standa og hvað hún ætlar að gera með þau svör sem þegar hafa komið og þau svör sem eftir eiga að koma frá forsætisráðherrum Breta og Hollendinga.

Það er annað mál sem ég ætla að ræða. Í dag er 25. nóvember og rétt fyrir kvöldmat í gær kom inn í þingið fyrsta skattafrumvarp hæstv. ríkisstjórnar af sennilega þremur sem von er á varðandi verulegar skattbreytingar og umbyltingu á skattkerfinu sem hér eiga að verða. Þetta gerir það að verkum að tíminn til að vinna þessi skattamál í þinginu er afar knappur. Nú eru einhver frumvörp, m.a. um verulegar breytingar á tekjuskattskerfinu, ókomin inn í þingið og mér fannst hæstv. fjármálaráðherra ekki svara því skýrt í gær hvenær von væri á slíkum frumvörpum inn í þingið. Ég vil inna hv. formann þingflokks Samfylkingarinnar, sem hugsanlega gæti lumað á einhverjum upplýsingum um það, hvenær vænta megi fleiri skattafrumvarpa frá hæstv. ríkisstjórn. Ég segi: Þeirra er beðið, auðvitað ekki með neinni eftirvæntingu, að sjálfsögðu ekki. Sá skattapakki sem birtist okkur í gær innifól töluvert meira en boðað hafði verið á blaðamannafundi í síðustu viku þannig að við vitum ekki hvað kemur næst. Þó að búið sé að leggja ákveðnar meginlínur vitum við ekki hvað kemur nákvæmlega. Það eru smáatriði og einstakar greinar þeirra sem skipta máli. En ég vildi spyrja hv. formann þingflokks Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) hvort hann viti hvernig þessum málum verður háttað og hvort hann sé sáttur við að ríkisstjórnin komi svona seint með þessi frumvörp inn í þingið.