138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

Reykjavíkurflugvöllur -- verklagsreglur bankanna -- Suðvesturlína o.fl.

[13:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að taka til umfjöllunar málefni Reykjavíkurflugvallar og ég vil taka undir með honum um mikilvægi þess að völlurinn sé þar sem hann er og er á þeirri skoðun að hann eigi að vera þar sem hann er. Um það er eflaust einhver ágreiningur í flestum flokkum en stefna Sjálfstæðisflokksins í málefnum Reykjavíkurflugvallar er alveg skýr. (Gripið fram í.) Landsfundur flokksins hefur ítrekað samþykkt að völlurinn skuli vera þar sem hann er. Við vitum að sérstaklega í borgarstjórnarflokki flokksins eru einhverjar skiptar skoðanir um þetta (Gripið fram í.) og kannski líka meðal einhverra þingmanna en svo er oft í stórum flokkum (Gripið fram í.) að það þarf að skiptast á skoðunum til að komast að niðurstöðu. En stefna okkar er alveg skýr í þessu máli (Gripið fram í.) og ég held að það sé mikill meiri hluti á þinginu og í landinu fyrir því að völlurinn verði áfram þar sem hann er.

Ég vil í þessu sambandi einnig vekja athygli á því að ég hef haft áhyggjur af þeirri miklu uppbyggingu sem fyrirhuguð er í Vatnsmýrinni og ég tel að verið sé að yfirskipuleggja það svæði. Ég hef miklar efasemdir um að þetta sé rétt staðsetning t.d. fyrir nýtt sjúkrahús og tel að það sé atriði sem þurfi að skoða alveg sérstaklega. Ef fer fram sem horfir varðandi uppbyggingu á þessu svæði þarf að fara í byggingu gríðarlega dýrra samgöngumannvirkja. Að öðrum kosti getur það fjármagn legið í samgöngumannvirkjum annars staðar sem einnig eru mjög brýn. Ég held að í því sambandi komi fyllilega til greina að skoða að byggð verði flugstöð við flugvöllinn en ekki þessi fyrirhugaða samgöngumiðstöð. Við byggjum samgöngumiðstöð fyrir rútuumferð og slíkt í jaðarbyggð eða við aðrar stofnbrautir sem henta betur og losum þannig umferðarkerfi borgarinnar við þessa stóru bíla sem eru á leiðinni inn og út úr borginni þannig að þeir þurfi ekki að fara alla leið inn að miðju borgarinnar til að komast leiðar sinnar.