138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar um ríkislaun.

159. mál
[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar um aðhaldsaðgerðir í ríkisrekstri sem birt er í skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013, sem lögð var fram á 137. löggjafarþingi, er sú stefna mörkuð að lækka skuli laun æðstu yfirmanna hjá ríkinu, þannig að þau verði ekki hærri en laun forsætisráðherra. Þegar um er að ræða ríkisstarfsmenn sem hafa mánaðarlega heildarlaun sem eru hærri en laun forsætisráðherra skal í samráði við viðkomandi ráðuneyti og stofnanir fara yfir heildarlaunakjör og vinnufyrirkomulag með það að markmiði að laun þeirra lækki í samræmi við launalækkanir hjá æðstu yfirmönnum hjá ríkinu. Fella skuli laun forstjóra og æðstu yfirmanna, fyrirtækja, stofnana og hlutafélaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins undir úrskurðarvald kjararáðs.

Framangreindri stefnumörkun stjórnvalda var hrundið í framkvæmd á liðnu sumarþingi með setningu laga um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum. Þar er ákvörðunarvald um laun framkvæmdastjóra, hlutafélaga í meirihlutaeigu ríkisins og forstöðumanna viðkomandi stofnana fært undir kjararáð.

Þá var svohljóðandi ákvæði bætt við lög um kjararáð:

„Við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra skv. 3. gr.“

Lögin tóku gildi 18. ágúst og hefur kjararáð í samræmi við þau hafist handa við endurskoðun á launum þeirra aðila sem falla undir lögin með hliðsjón af þessu. Samkvæmt upplýsingum frá kjararáði er sú endurskoðun misjafnlega langt á veg komin.

Hvað varðar endurskoðun launa þeirra ríkisstarfsmanna sem ekki falla undir úrskurðarvald kjararáðs ber að hafa í huga að þeir eiga rétt á launum samkvæmt gildandi kjarasamningi samanber 9. og 47. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins eru umsamin laun vegna dagvinnu samkvæmt kjarasamningi þó aðeins í einu tilviki hærri en laun forsætisráðherra en það er í tilviki flugmanna hjá Landhelgisgæslu Íslands.

Samninganefnd ríkisins fyrir hönd fjármálaráðherra gerir kjarasamninga við stéttarfélög. Er það verkefni hennar að leitast við að haga kjarasamningum með þeim hætti að þeir séu í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um ríkislaun.

Rétt er að taka fram að samkvæmt leiðarljósum ríkisstjórnarinnar og áðurnefndu ákvæði laga um kjararáð er miðað við að föst laun þeirra aðila sem þar um ræðir séu ekki hærri en laun forsætisráðherra. Þannig ber að hafa í huga að ekki er útilokað að heildarlaun einstakra aðila, t.d. vegna yfirvinnu, vaktaálags og fleira, geti verið hærri en laun forsætisráðherra.

Sem svar við fyrirspurn 2 er um að ræða að við framkvæmd umræddrar stefnumörkunar er miðað við laun forsætisráðherra eins og þau eru ákveðin af kjararáði og saman standa af þingfararkaupi og ráðherralaunum, sem eru nú um 935 þús. kr.

Í þriðja lagi er spurt hvort einhver fyrirtæki eða stofnanir séu undanþegin stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Svarið við þessu er eftirfarandi, með leyfi forseta:

Með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um kjararáð í sumar nær úrskurðarvald kjararáðs nú til allra forstöðumanna, forstjóra og framkvæmdastjóra stofnana ríkisins og opinberra hlutafélaga, jafnframt nær úrskurðarvaldið nú samkvæmt þeim breytingum sem gerðar voru einnig til launa og starfskjara framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga einkaréttareðlis sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og dótturfélaga þeirra samkvæmt nánari skilgreiningu í lögum. Undanþegin eru félög sem viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins eða dótturfélaga þessara fjármálafyrirtækja yfirtaka til að tryggja fullnustu kröfu. Í vafatilvikum úrskurðar fjármálaráðuneytið um hvort kjararáð eigi úrskurðarvald eða ekki.

Kjararáð vinnur nú að endurskoðun þeirra stofnana og fyrirtækja sem felld voru undir úrskurðarvald ráðsins í sumar. Endurskoðunin er misjafnlega langt á veg komin en engu máli er lokið enn sem komið er. Forráðamenn þeirra stofnana sem um ræðir eru útvarpsstjóri, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, bankastjóri Seðlabankans, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, forstjóri Landsvirkjunar, og einnig er kjararáð nú að vinna endurskoðun launa forstjóra Landspítalans.

Með þessum breytingum á lögum sem Alþingi hefur gert um kjararáð hefur löggjafinn afmarkað það til hvaða fyrirtækja umrædd stefnumörkun ríkisstjórnarinnar skuli ná.