138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

stefna ríkisstjórnarinnar um ríkislaun.

159. mál
[14:10]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir þessa fyrirspurn. Það er mikilvægt að halda framkvæmdarvaldinu við efnið í ljósi nýlegra upplýsinga um að frá áramótum hafi 42 einstaklingar verið ráðnir inn í ráðuneytin án auglýsinga sem gefur tilefni til þess að spyrja ýmissa spurninga.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort eitthvað sé hæft í því að minna aðhald sé í rekstri ráðuneytanna heldur en hjá undirstofnunum þeirra eins og heyrst hefur. Getur það verið að ráðuneytin og ráðherrarnir séu að skera mun minna niður en til að mynda margar mikilvægar stofnanir í samfélaginu?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra að því í ljósi þess að það er skýr krafa um aðhald í samfélaginu og sparnað, hvenær mun koma til fækkunar á ráðuneytum í ráðuneyti hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur?