138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

þýðingarvinna.

177. mál
[14:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og sömuleiðis þakka svör hæstv. utanríkisráðherra. Þau komu mér ekki á óvart, hann er jákvæður gagnvart þessu máli enda gamall vopnabróðir minn í þeirri baráttu að reyna að flytja störf út á land.

Ég skal halda áfram á sanngjörnu nótunum og segja að það er þó a.m.k. hægt að segja að eitt gott hlýst af ESB-umsókninni, hún er atvinnuskapandi fyrir þýðendur, en þá held ég að kostirnir séu að verða upptaldir.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, það eru heilmiklir möguleikar í þessu sambandi við það að flytja verkefni út á land, líka með útvistun og þess háttar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að halda áfram á þessari braut og sú reynsla sem við höfum frá Ísafirði er mjög góð og uppörvandi í þeim efnum.

Ég er síðan sammála hæstv. ráðherra um að það þarf auðvitað að gera mjög miklar kröfur sem snúa að þessari þýðingarvinnu. Það er ekkert heiglum hent að snúa tilskipunum Evrópusambandsins á skiljanlegt mál, þær eru fæstar heldur skrifaðar á skiljanlegu máli á frummálinu og því er heilmikið vandaverk að koma þeim til skilnings á íslenskri tungu. Ég tek því undir með hæstv. ráðherra að auðvitað þarf að gera miklar kröfur til þýðendanna.