138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

þýðingarvinna.

177. mál
[14:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst að gera örlitla athugasemd við ummæli síðasta hv. ræðumanns, Einars K. Guðfinnssonar, vegna þess að það er ekki alveg rétt hjá honum að Evrópusambandsaðild sé bara atvinnuskapandi fyrir þýðendur, hún er líka mjög atvinnuskapandi fyrir lögfræðinga vegna þess að það þarf mjög marga lögfræðinga til þess að túlka alla þá texta sem frá Brussel koma.

Að því slepptu eru tvö atriði sem ég vildi nefna í þessu samhengi. Annars vegar er það að þegar farið var af stað með umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu minnist ég þess eða minnir mig, skulum við segja, að hæstv. utanríkisráðherra hafi gefið í skyn að unnt væri að fá einhverja styrki frá Evrópusambandinu til þess að kosta þýðingarvinnu. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. utanríkisráðherra hefur einhverjar nýjar upplýsingar um það.

Svo get ég ekki látið hjá líða að skjóta því með, af því að hér er verið að tala um þýðingarvinnu vegna Evrópusambandsaðildar, og spyrja hæstv. utanríkisráðherra: (Forseti hringir.) Hverjir eru að móta samningsmarkmið okkar vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið?