138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

þýðingarvinna.

177. mál
[14:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin. Ég vil taka fram að ég sagði ekkert um að ekki hefði verið unnið neitt í málum um störf án staðsetningar. Ég veit að það hefur verið góður vilji, og jafnframt fagna ég því að ég á greinilega samherja í öðrum flokki í hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, Samfylkingin hefur þar eignast mjög ákveðinn málsvara starfa án staðsetningar og skulum við taka höndum saman um að berjast fyrir því. (Gripið fram í.) Ég leyfi mér sem sagt að vísa því á bug að þingmenn Samfylkingarinnar megi ekki ræða um störf án staðsetningar og ég mun ræða það hvenær sem mig lystir og hvar sem er.

Það eru nokkur atriði sem mig langar til þess að taka upp. Ég deili náttúrlega ekki skoðun hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að þetta sé það eina sem er jákvætt við aðildina heldur einn af mjög mörgum kostum Evrópusambandsaðildar, því skulum við halda mjög ákveðið til haga.

Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að það á að gera nákvæmlega sömu faglegu kröfur til landsbyggðarfólks og höfuðborgarfólks þegar við erum að ráða fólk til vinnu, að sjálfsögðu, það er enginn að biðja um neinn afslátt í því sambandi. Í raun og veru finnst mér fyrst og fremst bara verið að benda á að Ísland er sem sagt talsvert stærra en bara Reykjavík og næsta nágrenni. Við skulum alltaf muna eftir því varðandi þau störf sem við getum unnið annars staðar. Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til þess að auglýsa þau 14 störf sem eftir á að ráða í ákveðið og helst feitletrað, að þau séu án staðsetningar eða á einhvern hátt að vinna að því að efla þær þýðingamiðstöðvar sem komnar eru af stað þannig að það liggi algjörlega ljóst fyrir að þessi störf vill þessi ríkisstjórn mjög gjarnan að séu unnin utan höfuðborgarsvæðisins.