138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

flugsamgöngur til Vestmannaeyja.

145. mál
[14:36]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður fjallaði um að verið er að lyfta grettistaki hvað varðar samgöngur til Eyja með byggingu Landeyjahafnar. Hv. þingmaður vitnar í framtíðarsýn og þá skýrslu sem tekin var saman af starfshóp, sem þáverandi samgönguráðherra skipaði í maí 2004, sem komst að þeirri niðurstöðu að farið skyldi í að byggja Landeyjahöfn. Í framhaldi af þeirri skýrslu skipaði sami samgönguráðherra stýrihóp til að vinna að forathugun og eftir atvikum forhönnun og hönnun hafnar í Bakkafjöru þann 14. júlí, sennilega 2006. Í skipunarbréfi fyrir þann stýrihóp segir ýmislegt, m.a. er fjallað um flug í þessum skýrslum. Þar segir í þarfagreiningu fyrir ferju eða umferðarspá, einn af þáttum þar: „Gert er ráð fyrir að núverandi flugfarþegar fari með ferjunni.“ Síðan var skipaður stýrihópur sem gerði ráð fyrir að flug milli Eyja og Reykjavíkur legðist af. Í svokallaðri þarfagreiningu fyrir ferju segir m.a., með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að allir flugfarþegar milli Bakka og Eyja fari með ferju. Einnig má búast við að flug milli Reykjavíkur og Eyja falli niður.“

Þarna var því, virðulegur forseti, í þessu grettistaki og þessari framtíðarsýn og í þessu mikla verki sem verið er að vinna núna, þegar á þessum tíma gert ráð fyrir að flug, ríkisstyrkt flug mundi leggjast af milli lands og Eyja. Það er einfaldlega sagt í þarfagreiningunni þegar verið er að tala um hve ferjan á að vera stór o.s.frv. og það er það sem unnið hefur verið eftir.

Nú hillir undir, sem betur fer, að Landeyjahöfn verði tilbúin innan skamms, eftir 217 daga, ef ég man rétt, og 22 klukkustundir og 35 mínútur miðað við hvað klukkan er núna, eins og stendur á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. Það er okkar í samgönguráðuneytinu að vinna eftir þeirri stefnumótun sem þarna hefur farið fram og búa til rekstrarlíkan og útboðsgögn fyrir Herjólf um það hvernig hann á að sigla þarna á milli og þá er veigamikið atriði hve mörgum farþegum gera á ráð fyrir.

Ég hef, virðulegi forseti, fengið til mín, í umræðu um rekstur Herjólfs og vanda sem skapaðist á miklum verðbólgutímum og gengissigi, kvartanir frá rekstraraðilum ferjunnar, Eimskip, um að frá útboði ferjunnar síðast, hafi verið tekið upp ríkisstyrkt flug til Eyja sem hafi farið illa með rekstrarskilyrðin fyrir Herjólf. Jafnframt hef ég heyrt kvartanir frá rekstraraðilum Flugfélags Vestmannaeyja. Það er af því að segja, virðulegi forseti, að Vegagerðin hefur skrifað Flugfélaginu bréf þar sem Flugfélagið fer fram á endurnýjun á samningi sem rennur út um næstu áramót, í sjö mánuði, og það þurfum við líka að gera plús það sem ég hef rakið hér í skýrslum og framtíðarsýninni og aðdraganda að byggingu Landeyjahafnar. Þá er það auðvitað svo núna eins og hv. fyrirspyrjanda og öllum er kunnugt um að samgönguráðuneytinu ber að skera niður um 10% og það erum við að gera á öllum þáttum hjá Vegagerðinni. Nýlega var tilkynntur niðurskurður eða breytingar á snjómokstursreglum, sama er verið að gera með ferjur, flug, almenningssamgöngur með rútum, rekstur Vegagerðarinnar og allt heila batteríið, ef svo má að orði komast. Eftir þessu er unnið á þennan hátt. Það er svo að þetta ríkisstyrkta flug, eins og það er í dag miðað við 14 ferðir í viku, kostar 123 millj. kr. og með því að það stoppi 1. ágúst þegar Herjólfur byrjar að sigla í Landeyjahöfn, er auðvitað líka verið að koma til móts við þá kröfu sem sett er á okkur hjá Vegagerðinni, þ.e. að spara útgjöld. Það eru í kringum 51 millj. kr. sem mundu sparast í þá fimm mánuði sem ríkisstyrkt flug yrði ekki.

Virðulegi forseti. Eitt er ríkisstyrkt flug og annað hvort flug leggist af. Ég er þess fullviss að í framhaldi af því að ríkisstyrkt flug leggst af muni aðrir flugrekendur sjá sóknarfæri og viðskiptahugmynd í því að hefja flug til Vestmannaeyja á markaðslegum forsendum. Þetta hefði líka þurft að koma inn á það ákvæði sem er í gildandi samgönguáætlun um ferðatíma til (Forseti hringir.) Reykjavíkur sem er forsenda fyrir ríkisstyrktu flugi. Sá ferðatími er auðvitað að styttast með tilkomu Landeyjahafnar.