138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

flugsamgöngur til Vestmannaeyja.

145. mál
[14:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa umræðu. Það er sannarlega ekkert sérstaklega ánægjulegt að þurfa að tilkynna það að menn þurfi að skera niður samgöngur, skera niður ferðir, vegna þeirrar stöðu sem við erum í. Eins og öllum er kunnugt um og ég gat um áðan ber okkur að skera mikið niður, um 10%. Auðvitað deili ég því með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að draumurinn um sjálfbært flug til Eyja er það sem lifir eftir og ég hef fulla trú á að svo verði og menn muni sjá að það eru viðskiptatækifæri í því.

En sú breyting sem er að verða á næsta ári með Landeyjahöfn 1. júlí, eftir 217 daga og einhverja klukkutíma, vonandi gengur það allt saman eftir og ég er bara bjartsýnn á að þetta allt saman takist, framkvæmdir ganga vel, byrjað er að bjóða út önnur útboð eins og fyrir húsið og dýpkunina, ekjubrúna og fleira, og við höfum verið heppin með veður. Það er einfaldlega þannig að annars vegar blandast saman sá mikli niðurskurður sem okkur er gert að sæta og það er auðvitað hluti af því sem við erum að vinna í núna og er mikið farið í gegnum og það er ekkert auðhlaupið að finna leiðir til að ná þeim niðurskurði. Hins vegar er í þessu dæmi hvað varðar viðræður við Eimskip í þessu tilfelli, sem er með samning út næsta ár, það er svolítið flókið ferli að semja við Eimskip núna að breyta um og fara að sigla í Landeyjahöfn 30 mínútur frá því sem núna er. Þær viðræður eru í gangi og mikilvægt að ítreka það en það tekur auðvitað tíma.

Sú tilkynning sem tilkynnt var til Flugfélagsins er eitthvað eldri en tveggja daga eða svo, hún er eitthvað eldri, en auðvitað máttu menn líka vita að samningur um allt flug rennur út um næstu áramót, og eins og ég sagði í þessum niðurskurði þurfum við í þeim tækifærum sem þar eru (Forseti hringir.) að fara í gegnum samninga og endursemja við flugrekendur til að ná fram þeim niðurskurði sem við verðum að fá á þessum þáttum eins og öðrum á sviði samgöngumála.