138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sjóvarnir við Vík.

149. mál
[14:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda, Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir þessa fyrirspurn um sjóvarnir í Vík.

Svar við fyrstu spurningunni „Hver er áætlaður kostnaður við eflingu sjóvarna við byggðina í Vík í Mýrdal vegna sjávarflóða og landbrots?“ er þetta: Hvergi á landinu hefur landbrot verið jafnmikið og framan við byggðina í Vík í Mýrdal. Gríðarlegt sjávarflóð og landbrot átti sér stað þann 9. janúar 1990 þegar mesta aftakabrim í heila öld gerði við suðurströndina.

Í framhaldi af flóðinu var sett upp strandsvæðastjórnun með varnarlínu, eftirlitslínu og öryggissvæði ásamt mælisniðum til að fylgjast með landbrotinu. Strandsvæðastjórnun felur í sér að fylgst er með landbroti og sjóvarnir byggðar í áföngum í takt við landbrotið. Fyrsti áfangi sjóvarnargarðs, svokallaður flóðvarnargarður, var byggður árið 1994. Í strandsvæðastjórninni er gert ráð fyrir að ef sjórinn brýtur land á umtalsverðu svæði, t.d. að fjörubakkinn fari 20–30 metra inn fyrir eftirlitslínuna á 100–200 metra strandlengju, er kominn tími til að undirbúa ölduvörn með grjóti sem lagt yrði utan á flóðvarnargarðinn.

Nú er svo komið að allur fjörubakkinn á 750 metra kafla vestan Víkurár er kominn inn fyrir eftirlitslínuna og austan Víkurár, þ.e. framan við hús Vegagerðarinnar. Því er brýn nauðsyn á að hefja framkvæmdir við annan áfanga með því að hækka flóðvarnargarðinn vestan Víkurár og styrkja hann með ölduvörn. Áætlaður kostnaður við annan áfanga, ölduvörn á flóðvarnargarðinn vestan Víkurár, eru 230 millj. kr. á verðlagi í október 2009, þar af ríkishluti 7/8 hluti, 204 millj. kr.

Á árinu 2009 eru til ráðstöfunar í sjóvarnargarð við Vík í Mýrdal um 11 millj. kr. Þar af er framlag ríkisins á fjárlögum 2009 fyrir 9,6 milljónir en mótframlag Mýrdalshrepps 1,4 millj. kr. eða 1/8. Samkvæmt samgönguáætlun skal þessu fé varið til rannsókna og undirbúnings vegna grjótvarnar utan við flóðvarnargarðinn í Vík. Í því felst m.a. grjótnámsrannsóknir, könnun á matsskyldu framkvæmda, mælingar og hönnun sjóvarnargarðs. Vinna við þessa verkþætti stendur nú yfir. Stefnt er að því að í ársbyrjun 2010 verði undirbúningur kominn á það stig að hægt verði að bjóða út um 750 metra langan sjóvarnargarð vestan Víkurár. Áætlað er að í þennan garð þurfi um 400 þús. rúmmetra af grjóti og sprengdum kjarna. Frumáætlun gerir ráð fyrir heildarkostnaði um 230 millj. kr. eins og áður sagði og er þá miðað við að sjóvarnargarðurinn nái upp í 7,7 metra hæð.

Á núgildandi sjóvarnaáætlun eru á árinu 2010 áætlaðar 30 millj. kr. til byrjunarframkvæmda við sjóvarnargarð. Sú tala þyrfti því að hækka um 200 millj. kr. ef klára á garðinn vestan Víkurár á næsta ári. En því má auðvitað skjóta inn í að við skulum aðeins hafa í huga góð tilboð í mikla grjótflutninga og grjótvarnargarð við Landeyjahöfn þar sem við fengum frábært tilboð frá mjög góðum verktaka eða í kringum 60% af kostnaðaráætlun.

Áður en til útboðs kemur þarf að liggja fyrir staðfest fjárheimild til verksins. Reikna má með að verkið taki 6–8 mánuði frá því að það er boðið út. Ef ekki verður ráðist í þessa framkvæmd og stórbrim verður líkt og kom árið 1990 má reikna með miklu sjávarflóði sem hefði í för með sér mörg hundruð milljóna kr. tjón á mannvirkjum í eigu sveitarfélagsins og húseignum einstaklinga. Bæði sveitarstjórnin og samgönguráðherra hafa verulegar áhyggjur af þróun mála og brýnt er að afla fjár til verkefnisins, en eins og hér hefur komið fram og verið sagt er ekki gert ráð fyrir því inni í núgildandi fjárlögum.

„Hvaða leiðir hafa verið kannaðar til að mæta þeim kostnaði?“ spyr hv. þingmaður. Þá kem ég að því sem er kannski merkilegast við þetta sem hefur verið í gangi, en umræður hafa verið milli umhverfisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftir umræðu í ríkisstjórn þegar ég fór með þetta mál inn til ríkisstjórnar. Meðal annarra atriða hefur verið rætt um aðkomu ofanflóðasjóðs að fjármögnun verksins en umræður um það standa yfir og er ekki lokið, og á það vil ég leggja mikla áherslu. En það er, virðulegi forseti, í raun og veru sú hugsun sem þar kemur fram að ofanflóðasjóður var myndaður eftir miklar hamfarir hér á landi, þ.e. snjóflóðin vestur á fjörðum, og á að verja byggð fyrir snjóflóðum. Ég hef spurt sjálfan mig að því: Af hverju er flóðasjóður ekki notaður til að verja byggð vegna sjóflóða? vegna þess að snjóflóð og sjóflóð eru ótrúlega lík, það er einungis brottfall á einu n-i og þá erum við farin úr snjóflóði yfir í sjóflóð.

Þetta eru þær viðræður sem eru í gangi og ég hef nefnt sem dæmi, en ef það er ófær leið verður það að vera sú leið að við þurfum að kanna alla möguleika á því hvernig hægt er að finna fé í þetta verk til að koma öðrum áfanga í gang vegna þess að að mínu mati, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) þolir málið ekki frekari bið.