138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

jarðgöng á Íslandi sem uppfylla Evrópustaðla.

154. mál
[15:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og vona að hann hlusti núna, því að ef ég skil hann rétt er ekki búið að gera úttekt á þessum þremur göngum. Hann vísar í að það hafi komið skýrsla frá Speli og sömuleiðis hafi þetta verið skoðað varðandi tvenn önnur jarðgöng sem eiga að falla undir þetta. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt liggur það ekki fyrir í skýrsluformi eða úttektarformi hverju er ábótavant og í það minnsta Hvalfjarðargöngin, sem ég ætla ekki að segja að séu mikilvægustu göngin en þó þau fjölförnustu, hefur þetta ekki verið tekið út. Mér fannst ekki heldur skýrt hvað á að gera eða hvort það eigi að gera eitthvað í tengslum við þetta. Ég held að það skipti máli. Þessir staðlar eru auðvitað mannanna verk og sjálfsagt að fara yfir það hvort menn hafi náð einhverri fullkomnun með þessa staðla en þetta er þó eitthvað sem er til staðar og er ágætisleiðarvísir fyrir okkur þegar kemur að umferðaröryggismálum.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort það eigi ekki að gera úttekt á þessu í samræmi við þessa staðla, þannig að það liggi hreint og klárt fyrir og hægt sé að upplýsa þingið og samgöngunefnd um hverju er ábótavant og í kjölfarið þegar það er búið, hvort ráðherra beiti sér ekki fyrir því að hægt sé að meta hvað á að gera í framhaldinu.